Einkaaðilar um þriðjungi dýrari

Framkvæmdir við Hvalfjarðargöng voru á forræði einkaaðila.
Framkvæmdir við Hvalfjarðargöng voru á forræði einkaaðila. Morgunblaðið/Sverrir

Það er um 33% dýrara að fela fjárfestum að sjá um vegaframkvæmdir en hinu opinbera. Felst munurinn í hærri fjármagnskostnaði einkafjárfesta og kostnaði við innheimtu vegatolla. Þetta kemur fram í tilkynningu Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB). 

Í tilkynningunni segir jafnframt að FÍB sé andsnúið frumvarpi samgönguráðherra um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum. Þar er gert ráð fyrir að einkaaðilar annist flýtiframkvæmdir í vegagerð að hluta eða öllu leyti og fái greitt fyrir með innheimtu vegtolla. Félagið tekur þó fram í yfirlýsingunni að það styðji flýtiframkvæmdir og aðrar vegaframkvæmdir. 

Munar mörgum milljörðum

Slíkar framkvæmdir geti þó ekki verið framkvæmdir með því að leggja stórauknar álögur á vegfarendur einungis til þess að „ríkisvaldið geti tekið slíkar framkvæmdir út fyrir sviga í bókhaldi sínu“. 

Í umsögn FÍB um frumvarpið tekur félagið dæmi um fimm af sex verkefnum, sem nefnd eru sem möguleg flýtiverkefni. Framkvæmdarkostnaður er umræddra verkefna er samtals 44,3 milljarðar króna. Er borinn saman mismunur í kostnaði á því ef verkefnin eru annars vegar framkvæmd af ríkinu og hins vegar af einkaaðilum með lítillegu framlagi ríkisins. 

Samkvæmd útreikningum FÍB, að gefnum ákveðnum forsendum, er heildarkostnaður framkvæmda, sem alfarið eru á höndum ríkissjóðs, rétt um 60 milljarðar króna. Til samanburðar kosta sömu framkvæmdir 80 milljarða króna ef gert er ráð fyrir að þær séu að mestu fjármagnaðar af einkaaðilum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert