Arndís Anna gefur kost á sér í prófkjöri Pírata

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir lögmaður.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir lögmaður. Ljósmynd/Aðsend

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir mun gefa kost á sér í prófkjöri Pírata í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar í september, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Arndís Anna er sjálfstætt starfandi lögmaður með meistaragráðu í lögum frá Háskóla Íslands og viðbótarmeistaragráðu (LLM) frá KU Leuven í Belgíu. Hún starfaði um árabil hjá Rauða krossinum á Íslandi sem talsmaður hælisleitenda og flóttafólks.

„Lýðræði og gagnsæi, og þrotlaus barátta gegn spillingu og spilltri samskiptamenningu í stjórnmálum sem víðar, er það sem dró mig að Pírötum til að byrja með,“ segir Arndís Anna í tilkynningunni.

„Síðan þá hefur hreyfingin sífellt aukið trú mína á mannkynið með heiðarlegum vinnubrögðum, upplýstum og upplýsandi, fullum af virðingu við almenna borgara landsins jafnt sem aðra.“

Helstu baráttumál Arndísar Önnu eru að hennar sögn réttindi borgaranna; „að þau séu öllum ljós og öll fái notið þeirra, óháð stöðu og efnahag“.

„Sem stjórnmálamaður […] mun ég berjast fyrir frelsi einstaklingsins, og þá sérstaklega fyrir réttindum fólks sem enn á verulega undir högg að sækja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert