Krefja ríkislögreglustjóra og Isavia svara

Sterk ljós mættu fréttafólki Rúv á vettvangi við flugvöllinn aðfaranótt …
Sterk ljós mættu fréttafólki Rúv á vettvangi við flugvöllinn aðfaranótt fimmtudags. Skjáskot/Ruv.is

Stjórn Blaðamannafélags Íslands (BÍ) hefur sent ríkislögreglustjóra og forstjóra Isavia bréf vegna aðgerða Isavia til að hindra blaðamenn við störf aðfaranótt fimmtudags. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Blaðamannafélagsins. 

Starfs­menn Isa­via reyndu ít­rekað að koma í veg fyr­ir myndatökur tökuliðs Ríkisútvarpsins á vettvangi á Keflavíkurflugvelli þegar frétta­menn reyndu að fylgj­ast með aðgerðum lög­reglu þegar hóp­ur hæl­is­leit­enda var send­ur til Grikk­lands. 

Blaðamannafélagið lítur þetta alvarlegum augum enda felur þessi háttsemi starfsmanna Isavia í sér atlögu að störfum blaðamanna. Óumdeilt er að þarna var um fréttnæman atburð að ræða sem fullt tilefni er til að fjalla um. Hvorki lögregla né opinbert hlutafélag, sem Isavia er, á að fá að hlutast til um eðlileg störf blaðamanna eða hindra að fluttar séu fréttir af atburðum sem eiga sér stað innan starfssvæðis flugvallarins,“ segir í tilkynningu félagsins.

Isavia hefur kvaðst harma framkomu starfsmanna sinna við fjölmiðla.

Óskar eftir svörum

Þá segir að fréttamenn sem þarna voru að störfum hafi virt allar lokanir og takmarkanir sem gilda um öryggissvæði flugvallarins. 

BÍ óskar eftir svörum frá stjórnendum Isavia og ríkislögreglustjóra við eftirfarandi spurningum:

1. Hver tók ákvörðun um að hafa áhrif á og hamla eðlilegum störfum blaðamanna?
a. Ef beiðni barst Isavia um að hamla störfum blaðamanna, hvaðan kom sú beiðni?
2. Á hvaða grunni var slík ákvörðun tekin?
3. Hvernig munu stjórnendur Isavia og Ríkislögreglustjóra bregðast við og hvernig munu verkferlar hins opinbera hlutafélags og lögreglunnar breytast til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert