„Röðin var löng en hún gekk líka nokkuð hratt“

Eitt af því sem er í undirbúningi að sögn Auðar …
Eitt af því sem er í undirbúningi að sögn Auðar eru kaup á nýjum búnaði fyrir öryggisleitina á Keflavíkurflugvelli til að auka gæði flugverndar. Samsett mynd/Isavia/mbl.is/Eggert

Auður Ýr Sveinsdóttir, forstöðumaður flugverndar á Keflavíkurflugvelli, segir að markmiðið í öryggisleit á vellinum sé að 95% af farþegum komist í gegnum hana á innan við 15 mínútum.

Tilefnið er fréttir þess efnis að örtröð hafi myndast bæði á mánudaginn og fimmtudaginn í síðustu viku og að löng röð í öryggisleitina hafi náð alla leið niður í brottfararsalinn.

Gekk nokkuð hratt

Auður segir að þó að í stutta stund hafi röðin náð niður í brottfararsalinn á fimmtudag hafi umferðin gengið hratt og vel.

„Röðin var löng en hún gekk líka nokkuð hratt. Það sköpuðust ekki sömu aðstæður og á mánudag þegar við vorum í vandræðum vegna veikinda starfsfólks og gátum ekki haft allar línur opnar.

Kúfurinn er á sumrin og fimmtudagar eru stærstu dagarnir í flugstöðinni en þá er fólk að fara í helgarferðir til dæmis.“

Mikil fjárfesting í gangi

Bendir Auður á að vissir hlutar flugstöðvarinnar séu komnir til ára sinna og að farþegafjöldi hafi verið að aukast ár frá ári sem veldur því að stundum nái raðir niður stigann. Miklar framkvæmdir standa yfir við stækkun flugstöðvarinnar og segir Auður að austurvængur hennar hafi verið opnaður nýlega.

Auður segir framkvæmdir standa yfir við þessa risastóra viðbyggingu sem hýsir meðal annars farangurskerfið og í framtíðinni verða þar ný hlið að auki. Hún segir mikla fjárfestingu í gangi til að takast á við framtíðina eins og hún lítur út með aukningu farþega um flugstöðina.

Eitt af því sem er í undirbúningi að sögn Auðar eru kaup á nýjum búnaði fyrir öryggisleitina á Keflavíkurflugvelli til að auka gæði flugverndar.

„Við munum geta greint betur innihald í handfarangri farþega og hvort það sé hættulegt eða ekki. Svo verðum við einnig með betri greiningar á farþegunum sjálfum þegar þeir ganga í gegnum hliðin.

Það eru ekki lengur bara málmar sem verið er að leita af. Þessi greiningaraðferð sem er notuð fyrir myndirnar í töskunum getur meðal annars greint innihald og samsetningu vökvans sem kann að vera í töskunum,“ segir Auður.

Bandaríska fyrirtækið Leidos Incorporated er eitt af þeim fyrirtækjum sem sérhæfir sig í þeim búnaði sem Isavia undirbýr kaup á. 

Tölvur og tæki fái að vera í töskum

Þannig segir Auður að verið sé að auka gæði flugverndar. „Það sem er svo ánægjulegt er að þá minnkar þessi þörf að til dæmis tölvur og raftæki séu tekin upp úr töskum og vökvar sömuleiðis.“

Undirbúningsskref standa yfir fyrir innkaupaferlið og segir Auður að verið sé að horfa til þess að árið 2025 verði farið í innleiðingu á þessum nýja búnaði. Verið er að skoða búnað og skoða hvernig málum er háttað á öðrum flugvöllum en að sögn Auðar þarf að vanda vel til verka þar sem um sé að ræða mjög dýran búnað.

Hvað kostar svona búnaður?

„Þetta er um einn og hálfur milljarður króna. Þetta er ekki hilluvara, þetta er allt sérhannað, ekki bara vélarnar heldur öll færiböndin. Það er allt sérhannað fyrir okkar pláss.“

Auður segir að það ríki gott samstarf við Norðurlöndin og Isavia fylgist vel með hvernig gengur þar. „Við erum að læra og nota tækifærið til að sjá hvernig gengur annars staðar.“

Hún segir að vinnan sé ekki komin á það stig að hægt sé að áætla áhrif á biðtíma farþega en gerir ráð fyrir að þessi nýja tækni muni einfalda ferðalag farþega til muna.

mbl.is
Loka