Broskarlakerfið sett upp í verslunum Krónunnar

Krónan leggur mikið upp úr því að fá hæstu einkunn …
Krónan leggur mikið upp úr því að fá hæstu einkunn í úttektum heilbrigðiseftirlitsins. Samsett mynd

Krónan er að setja upp svokallað broskarlakerfi við inngang verslana sinna í Reykjavík til að auka upplýsinga gjöf til viðskiptavina sinna og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. 

„Það er bæði okkar hagur og neytenda að hafa þessar niðurstöður sýnilegar, en við í Krónunni leggjum mikið upp úr því að fá hæstu einkunn í úttektum heilbrigðiseftirlitsins,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, í samtali við mbl.is. 

Um er að ræða sambærilegt kerfi og þekkist á norðurlöndunum og töluverð umræða hefur skapast um undanfarna daga og vikur, en broskarlinn er til marks um niður­stöður heil­brigðis­eft­ir­lits­ins úr eft­ir­liti.

Niðurstöður úr eftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru að finna á heimasíðu …
Niðurstöður úr eftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru að finna á heimasíðu eftirlitsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnið í samvinnu við Heilbrigðiseftirlitið 

Guðrún segir Krónuna leggja mikið upp úr upplýsingagjöf til neytenda og því hafi verið ákveðið að kanna hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að Krónan myndi sjálf birta niðurstöður úr úttekt Heilbrigðiseftirlitsins við inngang verslana sinna. 

„Við höfum verið í sambandi við Heilbrigðiseftirlitið til að leita þeirra álits og þau taka mjög vel í þetta,“ segir Guðrún og bætir við að því hafi verið ákveðið, í samvinnu við veitingarýmin sem starfa sjálfstætt í Krónunni, að setja upp merkingar í þeim verslunum sem falla undir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. 

Veitingarýmin sem starfa sjálfstætt í Krónunni taka þátt í verkefninu …
Veitingarýmin sem starfa sjálfstætt í Krónunni taka þátt í verkefninu og verða niðurstöður heilbrigðiseftirlitsins jafnframt settar upp við umrædd rými. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvetja aðra til að gera slíkt hið sama 

Guðrún útskýrir að broskarlakerfið verði einungis sett upp í þessum verslunum vegna þess að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er eina umdæmið sem vinnur eftir svokölluðu broskarlakerfi, en í því umdæmi er gefin einkun á kvarðanum einn til fimm og því auðvelt að sýna fram á niðurstöður úttekta. 

Það er þó vilji Krónunnar að koma kerfinu upp í sem flestum verslunum sínum og því hafa þau sett sig í samband við önnur heilbrigðiseftirlit á landinu sem taka vel í verkefnið að sögn Guðrúnar. Það er þó erfiðara að sýna fram á heildarniðurstöður þeirra þar sem þau eru ekki með sama einkunarkerfi bætir hún við. 

„En við viljum endilega byrja á þessu og við hvetjum aðra til gera slíkt hið sama,“ segir Guðrún vongóð um að útbúið verði samstillt fyrirkomulag til einkunnargjafar sem nær yfir öll umdæmin til að auðvelda rekstraraðilum að birta niðurstöður sínar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert