Hjólin taka fram úr bílum í París

Kona hjólar við árbakka Signu í Parísarborg.
Kona hjólar við árbakka Signu í Parísarborg. AFP

Það eru fleiri hjól en bifreiðar í umferðinni í París, höfuðborg Frakklands, að því er marka má nýja könnun. Frá þessu greina borgaryfirvöld. 

„Hver hefði spáð því fyrir áratug að hjólin myndu taka fram úr bílunum. Það er þó það sem gerðist,“ segir aðstoðarborgarstjórinn David Belliard, sem sinnir samgöngumálum, í færslu sem hann birti á X. 

Könnunin var unnin á vegum stofnunar í París sem kemur að skipulagsmálum í borgarlandinu, L'institut Paris Region. Þar segir að borgarbúar velji hjólin í 11,2% tilfella þegar þeir ferðast um borgina. Aðeins 4,3% ferða voru á bíl. 

Langflestir ganga, eða í 53,3% tilfella. Næst á eftir komu almenningssamgöngur sem ná yfir 30% ferða. 

Ferðavenjur borgarbúa voru kannaðar frá október 2022 til apríl 2023. Alls var fylgt eftir ferðum 3.337 Parísarbúa sem voru á aldrinum 16-80 ára, auk þess sem fólkið hélt dagbók yfir ferðir sínar. 

Borgaryfirvöld í París hafa sett aukinn kraft í að leggja hjólastíga og hafa fækkað bílastæðum til að ná markmiðum sínum í baráttunni við loftslagsbreytingar. 

Bílar tróna aftur á móti enn á toppnum í úthverfum borgarinnar, en vonir standa til að stækkun lestarkerfisins inn í úthverfin muni verða þess valdandi að færri velji bíla til ferðalaga. En bifreiðar valda mikilli mengun í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert