Feta í fótspor Bláa lónsins og loka

Rekstraraðilar hótelsins Northern light inn, í Svartsengi, hafa fetað í fótspor Bláa lónsins og tekið ákvörðun um að loka hótelinu tímabundið. 

Þetta staðfestir Friðrik Einarsson, eigandi hótelsins, í samtali við mbl.is. 

„Við ætlum að taka okkur pásu í viku,“ segir Friðrik.

„Þetta er í rauninni tekið í framhaldinu af því að Bláa lónið ákveður að loka. Í sjálfu sér hefur ekkert breyst hér. Við erum enn þá á óvissustigi. Það eru engin merki um eldgos. Það eru hins vegar jarðskjálftar og við höfum fundið það að gestunum líður illa með þetta og finnst bara rétt í ljósi þess að taka okkur hvíld í viku og skoða síðan stöðuna.“

Óvenju rólegir gestir

Öflug jarðskjálftahrina hófst um miðnætti og var sá stærsti um 4,8 að stærð. Friðrik segir gesti hafa verið rólega, en einhverjir hafi þó yfirgefið hótelið.

„Við höfum verið að fá hér skjálfta upp á 5,9. Gestirnir almennt voru mjög rólegir, og í rauninni óvenju rólegir. Við höfum verið með mjög góða upplýsingagjöf. Það voru tvö herbergi sem ákváðu að fara og við aðstoðuðum við það.“

Tekur 3 mínútur að rýma

Þá segir hann starfsfólkið orðið vant ástandinu.

„Hérna vinna kannski 12 starfsmenn að meðaltali á hverjum tíma. Það tekur okkar sirka þrjár mínútur að koma okkur í burtu ef eitthvað skyldi gerast.“

Hann segir næstu daga verða nýtta í að þrífa lóðina og hótelið sjálft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert