Saumaði þjóðbúning í kjölfar mikils álags

Handavinna | 21. júní 2023

Saumaði þjóðbúning í kjölfar mikils álags

„Það er einhver sérstakur dulinn kraftur í þessum klæðum,“ segir leikkonan Aníta Briem sem lauk nýverið við að sauma íslenska þjóðbúninginn eftir að hafa setið tíu vikna námskeið hjá Heimilisiðnaðarfélaginu. 

Saumaði þjóðbúning í kjölfar mikils álags

Handavinna | 21. júní 2023

Leikkonan Aníta Briem er glæsileg í þjóðbúningnum sem hún eyddi …
Leikkonan Aníta Briem er glæsileg í þjóðbúningnum sem hún eyddi tíu vikum í að sauma. Samsett mynd

„Það er einhver sérstakur dulinn kraftur í þessum klæðum,“ segir leikkonan Aníta Briem sem lauk nýverið við að sauma íslenska þjóðbúninginn eftir að hafa setið tíu vikna námskeið hjá Heimilisiðnaðarfélaginu. 

„Það er einhver sérstakur dulinn kraftur í þessum klæðum,“ segir leikkonan Aníta Briem sem lauk nýverið við að sauma íslenska þjóðbúninginn eftir að hafa setið tíu vikna námskeið hjá Heimilisiðnaðarfélaginu. 

Aníta er landsmönnum að góðu kunn sem hæfileikarík leikkona enda hefur hún leikið frá blautu barnsbeini. Hún byrjaði leikferil sinn aðeins níu ára gömul í Þjóðleikhúsinu en síðar hélt hún til London í leiklistarnám. 

Yfirkomin af álagi

Undanfarin ár hefur verið í nógu að snúast hjá leikkonunni og lítill tími á milli verkefni, en hún ákvað samt að sækja saumanámskeið sem leið til að hugleiða eftir krefjandi vinnutímabil. 

„Þetta var mikil hugleiðsla af því að svona krefst mikillar einbeitingar. Maður þarf því að hafa sig allan við og þá er ekki pláss fyrir neitt annað. Þetta var ofboðslega góð leið fyrir mig til þess að hugleiða og mjög mikilvægt fyrir geðheilsu mína á þessum tíma þar sem mér fannst ég vera að bugast undan álagi. Þetta var algjör líflína,“ segir leikkonan. 

„Ég var tiltölulega nýbúin að ljúka við eftirvinnslu á nýrri sjónvarpsseríu, Svo lengi sem við lifum, sem ég bæði skrifaði og lék í og koma þættirnir til sýninga í haust. Eftir þá vinnutörn fann ég hversu yfirkomin af álagi ég var,“ segir Aníta, en hún sá námskeið Heimilisiðnaðarfélagsins auglýst og skráði sig til leiks sama kvöld. „Ég vissi ekkert út í hvað ég var að fara, en stundum er það bara rosalega gott. Ef þú veist að eitthvað er krefjandi og erfitt þá mögulega vex það manni augum, en stundum er bara mikilvægt að taka þetta skref fyrir skref.“

Í miðju saumaferlinu.
Í miðju saumaferlinu. Skjáskot/Instagram

Ljúfir morgnar með yndislegum konum

Aníta hefur ekki mikla reynslu af saumaskap en lét það ekki stoppa sig enda hefur hún mikla ánægju af því að læra nýja hluti. „Ég prjónaði aðeins þegar kórónuveiran geisaði og þótti það gott og hollt, annars hafði ég ekki saumað frá því í grunnskóla, en það er alveg ótrúlegt hvað handavinnunámið stendur með manni. 

Kannski er það líka bíómyndavinnan, þar er maður alltaf að læra eitthvað nýtt og fara út fyrir kassann. Hvort sem það er að kafa, meðhöndla dýr eða síga niður af klettum. Ég held ég hafi gefið mér þann hugsunarhátt að ég geti lært flest. Mér finnst ótrúlega gaman og gefandi að læra,“ segir Aníta. 

Leikkonan mætti einn morgun í viku í tíu vikur hjá Heimilisiðnaðarfélaginu og lærði alla þá tækni sem snýr að því að setja saman íslenska þjóðbúninginn. „Ég frétti bara að ég ætti að redda mér saumavél og ég reddaði mér saumavél. Svo var manni bara hent út í djúpu laugina.

Ég sat námskeiðið með yndislegum konum og bara einu sinni í viku eyddi ég morgninum með þeim að sauma. Ég sat síðan ótal kvöld heima, oft langt fram eftir nóttu að festa Herkúlesarbönd, hexa og annað sem ég átti áður engin orð yfir enda hafði ég aldrei heyrt flest þeirra fyrr,“ segir Aníta og hlær. 

Saumavinkonur Anítu.
Saumavinkonur Anítu. Skjáskot/Instagram

Merkisstund

Aníta náði ekki að ljúka við þjóðbúninginn fyrir 17. júní, en vígði hann degi seinna. „Ég vígði búninginn hinn 18. júní þar sem ég náði ekki að klára hann fyrir þjóðhátíðardaginn. Hinn 18. héldum við nokkur að syngja á hjúkrunarheimilinu þar sem amma mín dvelur og ég dreif mig þar af leiðandi að klára síðustu króka og falderingar til þess að geta vígt hann við það tilefni,“ útskýrir Aníta. 

Það var sannkölluð merkisstund fyrir Anítu að klæða sig upp í búninginn. „Mér þótti þetta afar merkilegt. Hvert einasta handtak og hvert einasta spor er gert samkvæmt gömlum hefðum og allt í höndunum þannig að þetta var mjög hátíðlegt. Mér leið eins og ég væri að klæða mig í sögu forfeðranna og gaman að vígja þetta á hjúkrunarheimilinu hennar ömmu og henni til heiðurs. 

Margar af eldri konunum á heimilinu höfðu einnig mikinn áhuga. Þær vildu ólmar skoða búninginn og vissu sömuleiðis helling um þetta og voru að fræða mig um ýmislegt og sögðu mér hvers konar yfirhafnir ég ætti að sauma mér næst,“ segir Aníta og hlær. 

Aníta vígði búninginn hinn 18. júní síðastliðinn.
Aníta vígði búninginn hinn 18. júní síðastliðinn. Skjáskot/Instagram

Dýr en mikilvæg fjölskyldueign

Anítu finnst tilhugsunin um það að nú sé til flík innan fjölskyldunnar sem geti mögulega lifað með komandi kynslóðum undraverð. „Gullið og skartið sem þú festir á upphlutinn kostar sitt. Þetta er frekar dýrt, en mér finnst svo fallegt að hugsa til þess, þar sem það var enginn þjóðbúningur í minni fjölskyldu, ekkert erfðargull, að ég hafi gert slíkt. Og núna er ég að hugsa til þess að dóttir mín eigi eftir að erfa þetta og að þetta sé eitthvað sem muni vonandi verða áfram í minni fjölskyldu og það er ómetanlegt.

Þetta var bara fallegt tækifæri til þess að fá að kafa ofan í þessar hefðir og sögu formæðra okkar og heiðra þær. Þetta sýnir sköpunarkraftinn sem alltaf hefur verið í íslensku þjóðinni,“ segir Aníta um búninginn. 

Ómetanlegar samverustundir

Leikkonan sat mörg kvöld við saumaskap enda fer heilmikill tími í að skapa okkar glæsilega þjóðbúning. Dóttir Anítu settist oftar en ekki niður með móður sinni og saumaði enda finnst Anítu mikilvægt að vera góð fyrirmynd þegar kemur að nýtingu og lagfæringum á hlutum. „Mamma mín var rosalega góð, hvort sem það var með borvélina eða saumakassann, að laga hlutina. Ég hef alltaf verið eins og hún, gengið í allt, en núna kann ég meira þegar kemur að saumaskap. 

Á þessum tímum, þegar eitthvað bilar eða kemur gat á föt, þá er fólk svo fljótt að henda eða kaupa nýtt. Mér finnst mikilvægt, bæði fyrir mig og heimili mitt, að nýta það sem er hægt og kenna dóttur minni það. 

Við áttum margar stundir saman, þar sem ég var oftar en ekki að vinna við þetta langt fram á nótt, en þá settist dóttir mín hjá mér, hún var að vinna með einhvern einfaldan útsaum og við saumuðum saman,“ segir leikkonan. „Það voru ljúfar stundir.“

Þetta er sannkallaður erfðargripur.
Þetta er sannkallaður erfðargripur. Skjáskot/Instagram

Vill sjá búninginn á sviðinu

Aníta flutti heim fyrir þremur árum eftir að hafa eytt meira en hálfri ævinni erlendis. „Ég er svo mikill Íslendingur. Ég er búin að vera heima í þrjú ár núna, en ég var hérna í sex mánuði við tökur á Ráðherranum og þá snerist líf mitt á haus og lífsýn og ég fann fyrir mikilli heimþrá. Ég fann löngun til þess að ala upp dóttur mína hér á landi, en hún var fimm ára á þeim tíma. 

Ég kom svo aftur til landsins til þess að taka upp myndina Skjálfta og í kjölfarið kom kórónuveiran og það gaf mér afsökun til þess að staldra við og hlusta á þetta sterka innsæi. Nú höfum við verið hér í þrjú ár og líður alveg afskaplega vel hérna,“ útskýrir Aníta.

Leikkonan vill ólm sjá búninginn í mynd eða á sviði. „Ég ætla að reyna að brúka þennan búning sem mest og svo er það alltaf þannig að lífið blæðir inn í listina, þannig hefur það verið hjá mér. Ég komst kannski á sporið með saumaskapinn þegar ég var að undirbúa mig fyrir Unni í Svari við bréfi Helgu. Hún var mikil handverkskona og þá varð ég að læra útsaum og alls konar.“

Það er nóg framundan hjá leikkonunni og nú saumakonunni, en vinkonurnar sem sóttu námskeiðið ásamt Anítu voru alveg á því að hún ætti að sauma þjóðbúning á dóttur sína. Anítu lýst mjög vel á þá hugmynd, en þar sem saumaskapurinn tekur sinn tíma er hún ekki alveg á því að ráðast í fleiri verkefni í bili. „Ég ætla að klára það sem er framundan fyrst. Upptökur á annarri seríu af Ráðherranum hefjast í næsta mánuði og er ég á fullu að undirbúa það ásamt útgáfu á seríunni minni í haust.

Svo er ég alltaf með augun opin fyrir rétta hlutverkinu, mig langar klárlega að fara aftur á svið. Það er langt síðan ég var í sýningu, ég lék síðast á West End árið 2005. Það er ekkert leikhús í Los Angeles, þar snýst allt um kvikmyndir og sjónvarp. Ég elska að vera hér á Íslandi og hafa tækifæri til að geta sótt leikhúsin,“ segir Aníta að lokum.

View this post on Instagram

A post shared by Aníta Briem (@anitabriem)

mbl.is