Prófessorar greiða atkvæði um verkfall

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Ómar

Atkvæðagreiðsla Félags prófessora við ríkisháskóla um hvort boða eigi til verkfalls 1.-15. desember næstkomandi hófst í dag og lýkur henni á mánudaginn næstkomandi. Félagið hefur verið með lausa samninga frá því í mars og fær engin viðbrögð frá ríkinu við kröfuatriðum sínum.

Rúnar Vilhjálmsson, formaður félagsins, segir að prófessorar séu seinþreyttir til vandræða en svo virðist sem þeim sé nóg boðið. Hann segir að samninganefndin hafi ítrekað beðið um viðbrögð við kröfuatriðum félagsins en án árangurs. Fáist þau ekki sé erfitt að semja um kaup og kjör. Þá hafi ekki verið boðað til næsta fundar.

Þá segir hann að óformleg könnun sem gerð var nýverið hafi gefið góða vísbendingu um það í hvað stefni en 83% þeirra sem tóku þátt lýstu sig tilbúna til verkfalls. Rúnar segir hátt hlutfallið í raun hafa komið sér óvart. Rúmlega þrjú hundruð virkir félagsmenn eru í Félagi prófessora við ríkisháskóla.

„Ég trúi ekki að ríkið ætli sér að draga viðræður við okkur frekar á langinn,“ segir Rúnar og að verkfallið sé til þess að knýja á um samning. Niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni mun liggja fyrir á mánudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert