BSRB undirbýr verkfallsaðgerðir

BSRB hefur verið án kjarasamnings í á 11. mánuð.
BSRB hefur verið án kjarasamnings í á 11. mánuð. mbl.is/Golli

Félagar í aðildarfélögum BSRB sem semja við ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg ætla að greiða atkvæði um verkfallsboðun 17.-19. febrúar. Stefnt er að því að hefja aðgerðir í mars, hafi samningar ekki náðst þá.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, að um sé að ræða 18 félög innan BSRB og falla um 19 þúsund manns undir kjarasamningana sem um ræðir. Yfir 9 þúsund félagar eru í Sameyki og vinna aðallega hjá ríki og borg. Um 6.700 eru samtals í félögum starfsmanna hinna ýmsu sveitarfélaga. Félagar í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna eru um 1.200.

Sonja Ýr segir að fyrirkomulag fyrirhugaðra aðgerða muni skýrast þegar nær þeim dregur. Félögin muni fá tíma til að fara yfir tillögur þar um. Hún segir að um verði að ræða skæruverkföll, en ekki allsherjarverkfall. Aðgerðir hjá félagsmönnum sem sinna hliðstæðum störfum hjá ríki eða sveitarfélögum um allt land verða samstilltar. Atkvæði verða greidd hjá hverju stéttarfélagi og eftir því hjá hvaða vinnuveitanda viðkomandi félagsmaður starfar. Sonja Ýr telur líklegt að atkvæðagreiðslan verði rafræn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert