Gripnir með mikið magn fíkniefna um borð í skútu

Elsti maðurinn er fæddur árið 1970 og sá yngsti er …
Elsti maðurinn er fæddur árið 1970 og sá yngsti er fæddur árið 2002. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír karlmenn voru handteknir á laugardag grunaðir um að hafa ætlað að flytja fíkniefni til landsins í skútu. Lögregla lagði hald á töluvert magn af fíkniefnum um borð í skútunni sem dregin var til hafnar á laugardag.

Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. 

Mennirnir hafa allir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 4. júlí. Tveir þeirra voru handteknir um borð í skútunni og sá þriðji í landi skömmu síðar. 

Við erum að rannsaka þetta með tilliti til þess að þeir hafi verið að flytja fíkniefni,” segir Grímur.

Fíkniefnin fundust í skútunni undan suðurströnd Íslands. Grímur gat ekki upplýst nánar um hvar skútan hefði verið dregin til hafnar. 

Sá yngsti fæddur 2002

Hann segir mennina vera á mismunandi aldri. Sá elsti sé fæddur árið 1970 og sá yngsti árið 2002. Mennirnir eru ekki íslenskir. 

Aðspurður gat Grímur ekki upplýst um hvers konar fíkniefni hefðu fundist, né hversu mikið, að öðru leyti en að um töluvert magn hafi verið að ræða. 

Hann segir það vera hluti af rannsókninni hvort einhver hinna handteknu sé eigandi skútunnar. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum, Landhelgisgæslan, sérsveit ríkislögreglustjóra og Tollgæslan tóku þátt í aðgerðinni á laugardag.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir við mbl.is að eftirlitsflugvélin TF-SIF, þyrlusveit og séraðgerðasveit gæslunnar og varðbáturinn Óðinn hafi komið að aðgerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert