Milljónir án rafmagns

Fólk gengur um stræti Karachi, fjölmennustu borgar Pakistans, í niðamyrkri.
Fólk gengur um stræti Karachi, fjölmennustu borgar Pakistans, í niðamyrkri. AFP

Milljónir eru án rafmagns í Pakistan eftir að meiri háttar bilun kom upp í rafkerfi landsins aðfaranótt sunnudags – síðdegis á laugardag að íslenskum tíma. Rafmagn fór af í öllum helstu borgum landsins, þar á meðal höfuðborginni Islamabad og borginni Karachi sem er meðal fjölmennustu borga heims.

Omar Ayub Khan, ráðherra orkumála, sagði á Twitter að unnið sé að því að koma rafmagni á í nokkrum skrefum, fyrst í höfuðborginni. Nokkrum tímum síðar var rafmagn komið á að mestu.

Að sögn Khans fór tíðnin í raforkukerfi landsins úr 50 Hz niður í núll, en ekki liggur fyrir hvað olli. Engar fregnir hafa borist af truflunum á sjúkrahúsum í landinu en þau búa oftar en ekki yfir varaafli.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Pakistanar glíma við rafmagnsleysi á landsvísu. Árið 2015 misstu um 80% notenda aðgang að rafmagni um tíma eftir árás á rafkerfi landsins. Um 210 milljónir manna búa í Pakistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert