Aldrei eins umfangsmiklar lokanir

Strætóferðir falla niður á 166 biðstöðvum og 42 hjáleiðum frá …
Strætóferðir falla niður á 166 biðstöðvum og 42 hjáleiðum frá 9.30 -14 á sunnudag. mbl.is/Hjörtur

„Þetta eru umfangsmestu lokanir sem að hafa komið til sögunnar og hefur mjög víðtæk áhrif á margar leiðir,“ segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. Hjólreiðakeppnin Tour of Reykjavík fer fram nk. sunnudag, en vegna mótsins munu strætisvagnar ekki koma við á 166 biðstöðvum frá því klukkan 9.30 um morguninn og til klukkan 14 síðdegis, auk þess sem 42 hjáleiðir falla niður á þessum sama tíma.

Frétt mbl.is: Víðtækar lokarnir vegna Tour of Reykjavík

Keppnishaldarar Tour of Reykjavík fengu leyfi í dag til að loka nokkrum umferðaræðum eins og Suðurlandsbraut og Sæbraut á milli klukkan átta og fjögur. Fréttastofa RÚV hefur eftir forsvarsmönnum rútufyrirtækja að ekkert samráð hafa verið haft við þá um lokanirnar, sem leiði til mikilla óþæginda fyrir viðskiptavini og gesti höfuðborgarinnar.

Ný hjólreiðakeppni, Tour of Reykjavík, verður haldin á sunnudag.
Ný hjólreiðakeppni, Tour of Reykjavík, verður haldin á sunnudag. Ljósmynd/Pétur Þór Ragnarsson

Jóhannes segir þetta vera mun meiri lokanir en komið hefur til vegna Reykjavíkurmaraþons, Menningarnætur eða annarra hátíða sem haldnar hafa verið í borginni. „Við fengum reyndar heimild til að láta tvær leiðir skera hjólabrautina yfir Suðurlandsbrautina, en þetta eru samt sem áður heilmiklar lokanir.“

„Veruleg óþægindi“

Þessu fylgi töluverð vinna, en Strætó þarf t.a.m. að setja upp miða á hverri einustu biðstöð sem dettur úr virkni og láta vita af því að biðstöðin sé ekki virk á meðan á lokun stendur. „Svo hvetjum við farþega til að kynna sér málið á vef okkar straeto.is,“ segir hann og nefnir að uppýsingar um lokanirnar sé einnig að finna á vef Reykjavíkurborgar og Tour of Reykjavík.

„Þetta er kannski sem betur fer annaminnsti dagurinn hjá okkur og minnst keyrsla í gangi. Samt sem áður eru þetta veruleg óþægindi sem viðskiptavinir okkar finna fyrir.“

Hjá Strætó hafi menn heyrt af víðtækum áhrifum á almenningssamgöngur vegna sambærilegra viðburða erlendis. „Þannig að þetta er bara eitthvað sem við tökum þátt í og reynum að leysa eins vel og hægt er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert