Samræmd ruslaflokkun á öllu höfuðborgarsvæðinu

Allt rusl við sérbýli og fjölbýli á nú að flokka …
Allt rusl við sérbýli og fjölbýli á nú að flokka í fjóra flokka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lagt er til að flokkunarkerfi fyrir rusl verði eins á öllu höfuðborgarsvæðinu og að flokkað verði í fjóra mismunandi flokka samkvæmt niðurstöðu nýrrar skýrslu um sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu sem unnin er fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sorpu og sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins. Lagt er til að fyrstu skref verði stigin ekki seinna en í maí á þessu ári.

Flokkarnir fjórir sem lagt er til að almenn sorphirða skiptist í eru:

  • Lífrænn eldhúsúrgangur
  • Blandað heimilissorp
  • Pappír / pappi
  • Plast

Fyrir sérbýli þýðir þetta tvær tvískiptar ruslatunnur eða þrjár, þar sem pappír/pappi og plast eru í sér tunnum. Fyrir fjölbýli þýðir þetta fjórar mismunandi tunnur.

Flokkun samkvæmt nýja flokkunarkerfinu.
Flokkun samkvæmt nýja flokkunarkerfinu. mbl.is

Í þeim sjö sveitarfélögum sem eru innan marka höfuðborgarsvæðisins eru í dag sjö mismunandi flokkunarkerfi og hirðing í samræmi við það. Með þessari vinnu á að reyna að sameina þetta þannig að samræmt kerfi bæði flokkunar og hirðingar verði á svæðinu öllu.

Fram kemur í skýrslunni að lagt sé til að eldri ruslatunnur við sérbýli verði áfram hagnýttar þar sem því verði komið við fyrir pappír/pappa og fyrir plast. Þó verði alltaf til staðar eitt tvískipt ílát fyrir lífrænan eldhúsúrgang og blandaðan úrgang, en skipta á ílátunum í hlutföllunum 60% blandaður úrgangur og 40% lífrænn úrgangur.

Gæti kallað á nýja djúpgáma

Í fjölbýlum þar sem djúpgámar eru til staðar þarf að merkja þá með nýjum úrgangsflokkum, en ef ekki eru nægjanlega margir gámar til staðar nú þegar þarf annað hvort að skipta út venjulegum djúpgám fyrir tvískiptan djúpgám, eða grafa fyrir nýjum djúpgám eða notast við lausnir ofanjarðar. Bent er á í skýrslunni að sveitarfélög þurfi að taka afstöðu til þess hvort þau taki þátt í mögulegum kostnaði með húsfélögum.

Flokkun sorps við heimili verður skipt í fjóra flokka á …
Flokkun sorps við heimili verður skipt í fjóra flokka á öllu höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í skýrslunni er lagt til að lífrænum eldhúsúrgangi sé safnað saman í þar til gerða bréfpoka sem brotna auðveldlega niður og festast ekki í vélbúnaði móttökustöðva. Lagt er til að sveitarfélög útvegi slíka bréfpoka.

Grenndarstöðvar með 500-1000 metra millibili

Þá er lagt til að sveitarfélögin komi á laggirnar neti af smætti og stærri grenndarstöðvum til að hirða aðra úrgangsflokka. Í skýrslunni er miðað við að 500 metrar eigi að vera á milli minni stöðva og að þær séu þrír fjórðu hlutar af grenndarstöðvanetinu. Á þeim ætti að safna fjórum flokkum; gleri, skilagjaldsumbúðum (dósum og flöskum), málum, textíl.

Í stærri grenndarstöðvum, sem eiga að vera fjórðungur grenndarstöðvanna og með 500-1000 metra millibili, ætti að safna sex flokkum. Sömu fjórum flokkum og á minni stöðvunum auk pappírs/pappa og plasts.

Innleiðing strax í maí

Skýrsluhöfundar leggja til að sveitarfélögin hefji innleiðingu í skrefum og taki fyrir afmarkaðar bæjareiningar í hverju skrefi. Lagt er til að ekki seinna en í maí á þessu ári hafi öll sveitarfélögin valið afmarkað svæði sem einkennist af fjölbýlum til að hefja innleiðingarferlið.

Þá er lagt til að sveitarfélögin hefji undirbúning að útboði nýrra íláta hið fyrsta, en gera megi ráð fyrir að það taki um fjóra mánuði frá því að útboð hefst þar til ílát séu tilbúin.

Vinna starfshópsins kemur í kjölfar breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs sem samþykkt voru í júlí í fyrra og tengjast hringrásarhagkerfinu. Breytingar laganna taka gildi um næstu áramót og eru breytingar á sorphirðu því óhjákvæmilegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert