Lágmarka skaðann og færa til viðburði

Harpa í miðbæ Reykjavíkur.
Harpa í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Þó nokkrum viðburðum í Hörpu hefur verið frestað undanfarna daga vegna kórónuveirunnar og segir Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri það óhjákvæmilegt að þetta stærsta samkomuhús landsins verði fyrir áhrifum vegna veirunnar.

„Við höfum verið síðustu tíu daga að vinna mjög þétt með okkar viðskiptavinum, þeim sem voru búnir að bóka viðburði hér í húsinu eins og árshátíðir og ráðstefnur, við að finna lausnir sem ganga upp,“ segir Svanhildur og bætir við að fundnar hafi verið nýjar dagsetningar í yfirgnæfandi fjölda tilfella.

Á meðal viðburða sem hefur verið frestað eða aflýst eru Matarmarkaður Búrsins, árshátíð Landhelgisgæslunnar, Reykjavíkurskákmótið og Eve Fanfest. Engum stórum erlendum ráðstefnum hefur verið frestað.

„Munum finna fyrir þessu“

Aðspurð segist Svanhildur ekki geta sagt til um tekjutapið sem Harpa verður fyrir vegna veirunnar. „Okkar áhersla er fyrst og fremst á að lágmarka skaðann og færa til viðburði. Það gengur ljómandi vel en það er óhjákvæmilegt að við munum finna fyrir þessu.“

Hún bætir við að allir séu rólegir og yfirvegaðir í Hörpu en áskorunin sé mikil, rétt eins og ábyrgðin. Allir fari í einu og öllu eftir fyrirmælum yfirvalda, hægt sé að nálgast spritt á mörgum stöðum í húsinu og verkferlarnir séu mjög skýrir.

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.
Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu. mbl.is/​Hari

Vonar að Hörpu verði ekki lokað 

Hún kveðst vitaskuld vona að Hörpu verði ekki lokað vegna veirunnar. „Við, eins og aðrir, fylgjumst með því hverju fram vindur og hvaða ákvarðanir yfirvöld taka og við vonum einlæglega að til þess komi ekki.“ Forseti Íslands og landlæknir hafi bent á að fólk megi ekki hætta að lifa lífinu og gleðjast og nefnir Svanhildur að Harpa komi mjög sterk þar inn.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða haldin í Hörpu í kvöld og tónleikar með Sinfóníuhljómsveit Íslands verða á fimmtudag og laugardag. Viðburðahald heldur því áfram í húsinu af fullum krafti, þótt það sé ekki af sama magni og til stóð.

Eðlilegt að fólk hiki 

Spurð hvort miðasala hafi ekki dregist saman segir hún eðlilegt að fólk hiki aðeins en nefnir að forsala á Jókerinn í maí með SinfoniaNord hafi farið vel af stað í gær og margar fyrirspurnir hafi borist inn í framtíðina bæði frá innlendum og erlendum aðilum.

„Akkúrat núna tökum við einn dag í einu og vinnum okkur út frá þessu,“ segir Svanhildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert