Aflétta trúnaði yfir átta skjölum

Kærunefnd útboðsmála hefur ákveðið að aflétta eigi trúnaði yfir átta …
Kærunefnd útboðsmála hefur ákveðið að aflétta eigi trúnaði yfir átta skjölum er varða útboð frá því í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Kærunefnd útboðsmála hefur ákveðið að aflétta trúnaði yfir átta fylgiskjölum er varða útboð Sorpu í fyrra þar sem sænska end­ur­vinnslu­fyr­ir­tækið Stena Recycling AB var hlutskarpast. Kærunefndin hafnar þó að aflétta trúnaði yfir 8 öðrum fylgiskjölum.

Útboðið varðaði út­flutn­ing á brenn­an­leg­um úr­gangi og vildi hvorki Sorpa né Stena veita íslenska gámafélaginu aðgang að gögnunum eftir beiðni gámafélagsins. 

Íslenska gámafélagið kærði málið eftir að hafa lotið í lægra haldi í útboðinu og krafðist þess að fá aðgang að fylgiskjölum sem Stena hafði veitt Sorpu. Bar gámafélagið það fyrir sig að tilboð Stena hafi ekki uppfyllt fjölda skilyrða útboðsins, þar á meðal ófrávíkjanlegt skilyrði um tveggja ára reynslu af útflutningi á RDF, og því hafi Sorpu borið að hafna tilboðinu. Þá standi almannahagsmunir til þess að veittur sé aðgangur að gögnum er varði ráðstöfun opinberra fjármuna.

Stena gerði ekki athugasemd við birtingu ákveðinna skjala

Stena gerið ekki athugasemdir við að gámafélaginu yrði afhent lánshæfismat þess (fskj. 7 og 7a), kynning skipafélags (fskj. 19), upplýsingar um orkunýtingarhlutfall Tekniska Verken (fskj. 19), kynning á Tekniska Verken (fskj. 27) og yfirferð IKR á fjárhagslegu hæfi bjóðenda (fskj. 83).

Í ljósi þess að Stena lagðist ekki gegn því að gámafélaginu yrði veitt þau gögn samþykkti kærunefnd að félaginu yrði veittur aðgangur að þeim gögnum. Stena lagðist þó gegn því að gámafélaginu yrði veittur aðgangur að 10 öðrum fylgiskjölum er vörðuðu yfirlýsingar viðskiptavina Stena um reynslu, skýrsla um tilhögun verka og upplýsingar um viðskipti Stena svo fátt eitt sé nefnt.

Sorpa bar það fyrir sig að það vildi ekki veita aðgang að gögnunum þar sem að hagsmunir Stena og Sorpu af því að að gámafélaginu yrði ekki veittur aðgang að gögnunum væri ríkari en hagsmunir gámafélagsins á því að fá að kynna sér gögnin. Vísaði Sorpa meðal annars til þess að gámafélagið og Stena væru samkeppnisaðilar og að í gögnunum væru viðskiptalegir hagsmunir undir.

Kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu að hafna beiðni gámafélagsins um 8 af 10 skjölum, sem Stena vildi ekki aflétta trúnaði af, en aflétti aðgang að tveimur skjölum sem vörðuðu yfirlýsingar viðskiptavina Stena um reynslu. Þó var afmáð upplýsingar í þeim tveimur skjölum sem gætu upplýst um það hverjir viðskiptavinirnir sjálfir eru.

Ákvörðunarorð kærunefndar útboðsmála:

Kæranda, Íslenska gámafélaginu ehf., er veittur aðgangur að eftirfarandi gögnum:

Fskj. 7. Lánshæfismat Stena á ensku

Fskj. 7a. Lánshæfismat Stena á íslensku

Fskj. 10. Kynning skipafélags sem Stena hyggst nota

Fskj. 19. Upplýsingar um orkunýtingarhlutfall Tekniska Verken

Fskj. 27. Kynning á Tekniska Verken

Fskj. 83. Yfirferð IKR á fjárhagslegu hæfi bjóðenda

Kæranda er veittur aðgangur að eftirfarandi gögnum, þó þannig að upplýsingar er gefa til kynna hverjir viðskiptavinir Stena séu skulu afmáðar:

Fskj. 15. Yfirlýsing viðskiptavinar Stena um reynslu

Fskj. 16. Yfirlýsing viðskiptavinar Stena um reynslu

Kæranda er synjað um aðgang að eftirfarandi skjölum:

Fskj. 14. Quote SORPA, Export of Selected Waste from Energey Revovery

Fskj. 17. Upplýsingar um magn Stena árin 2018-2022

Fskj. 18. Upplýsingar um viðskipti Stena við þrjá aðila

Fskj. 22. Skýrsla um tilhögun verks samkvæmt útboði, þ.m.t. flutning, geymslu, tæki o.fl.

Fskj. 23. Skýrsla um tilhögun verks, reynslu o.fl.

Fskj. 28. Yfirlýsing Stena

Fskj. 30. Stena útfyllt sundurliðun tilboðsbókar (BQQ)

Fskj. 30a. Stena útfyllt pass/fail requirements

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert