Raforkufrumvarpi breytt

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir ekki útilokað að …
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir ekki útilokað að frumvarpið taki frekari breytingum en orðið er. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi

Frumvarp til raforkulaga sem ætlað er að tryggja raforkuöryggi til almennra notenda hefur tekið talsverðum breytingum í meðförum atvinnuveganefndar Alþingis sem lauk yfirferð sinni yfir málið síðdegis í gær.

Frumvarpið fer nú til þingsins sem tekur það til 2. umræðu svo fljótt sem verða má, en markmiðið er að afgreiða málið fyrir jólahlé þingsins. Ekki er þó útilokað að frumvarpið taki frekari breytingum en orðið er, að því er Þórarinn Ingi Pétursson formaður nefndarinnar segir í samtali við Morgunblaðið.

Ráðherra taki ákvörðun um skerðingar

Þórarinn Ingi segir að meðal breytinga á frumvarpinu sé að ef til þess komi að skerða þurfi raforku til stórnotenda, þá sé það ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála sem taki um það ákvörðun að fengnum tillögum Orkustofnunar og Landsnets, en ekki Orkustofnun eins og áður hafi verið ráðgert.

Tilkynna skuli atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd um það innan fimm daga frá því ákvörðun er tekin. Er þetta í samræmi við athugasemdir sem nefndinni hafa borist.

Gildistími styttur og endursala heimiluð

Gildistími tekur líka breytingum, verður eitt ár í stað tveggja áður. Einnig verður gildistími skerðingar styttur úr sex mánuðum í þrjá og ekki fyrr en að loknu ítarlegu mati.

Þá verður opnað á þann möguleika að sá stórnotandi sem tryggt hefur sér aðgang að orku en nýtir hana ekki alla, geti selt hana til baka. Um það segir Þórarinn Ingi að tryggja verði að slík endursala verði ekki á óhóflega háu verði.

Verkefnið að verja almenning

Allir sem framleiða raforku segir Þórarinn Ingi að eigi að bera hlutfallslega jafna ábyrgð á útvegun raforku og sama ætti yfir alla að ganga í því efni. Ekkert framangreindra ákvæða virkjast nema til skerðingar komi.

„Hugsunin er alltaf sú sama, við erum að verja almenning fyrir því að rafmagnsreikningurinn hækki,“ segir Þórarinn Ingi og bætir því við að það sé hluti af lífsgæðum Íslendinga að búa við ódýra raforku. „Verkefni okkar er fyrst og fremst að verja almenning,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert