Ívar Orri rændur í Suður-Frakklandi

Á ferðalagi | 7. maí 2024

Ívar Orri rændur í Suður-Frakklandi

Ívar Orri Ómarsson, Íslendingur sem vakti mikla athygli fyrr á árinu fyrir myndskeið sem sýna hann borða óeldaðan mat, varð fyrir því óláni að brotist var inn í húsbíl hans um hábjartan dag og ýmis verðmæti tekin. 

Ívar Orri rændur í Suður-Frakklandi

Á ferðalagi | 7. maí 2024

Ívar Orri er ánægður að vera kominn burt frá svæðinu.
Ívar Orri er ánægður að vera kominn burt frá svæðinu. Samsett mynd

Ívar Orri Ómarsson, Íslendingur sem vakti mikla athygli fyrr á árinu fyrir myndskeið sem sýna hann borða óeldaðan mat, varð fyrir því óláni að brotist var inn í húsbíl hans um hábjartan dag og ýmis verðmæti tekin. 

Ívar Orri Ómarsson, Íslendingur sem vakti mikla athygli fyrr á árinu fyrir myndskeið sem sýna hann borða óeldaðan mat, varð fyrir því óláni að brotist var inn í húsbíl hans um hábjartan dag og ýmis verðmæti tekin. 

Ívar Orri er um þessar mundir staddur í Frakklandi en hann er á heljarinnar ferðalagi um Evrópu ásamt skoskri sambýliskonu sinni, Samönthu Pieroni, og tveimur þýskum fjárhundum þeirra. 

Blaðamaður mbl.is hafði samband við Ívar Orra og fékk að heyra um þetta leiðindaatvik en það átti sér stað á fáförnu svæði nálægt Marseille í Frakklandi. 

„Mikið af þjófum á ferð“

„Við erum stödd í Suður-Frakklandi og lentum í þeirri óskemmtilegu reynslu að vera rænd. Það var brotist inn í húsbílinn okkar á meðan við tókum góðan göngutúr um svæðið með hundana okkar,“ útskýrir Ívar Orri. 

„Það var búið að segja okkur að það væri mikið af þjófum á ferð í Marseille en okkur grunaði ekki að ástandið væri svona slæmt í sveitinni. Við töldum okkur ekki þurfa að hafa neinar sérstakar áhyggjur enda allt gengið eins og í sögu fram að þessu,“ segir hann. 

„Við höfum alltaf tekið öll verðmæti með okkur í hvert sinn sem við yfirgefum bílinn en í þetta sinn ösnuðumst við til að skilja kortaveskið eftir í bílnum. Þetta reyndust dýrkeypt mistök. Kortaveskið innihélt öll greiðslukort og ökuskírteini okkar beggja. Sem betur fer þá tók ég allt lausafé og bæði sett af bíllyklum.“

„Töldum þetta vera netsvindl“

Stuttu eftir að Ívar Orri og Samantha lögðu af stað, fór hún að fá tilkynningar frá bankanum um sviksamlega kortanotkun. 

„Við skildum hvorki upp né niður í þessu en það hvarflaði ekki að okkur að einhver hefði brotist inn í húsbílinn og tekið kortin okkar og önnur verðmæti. Við töldum þetta vera einhvers konar netsvindl. Svo reyndist ekki vera.

Þegar við snerum til baka og sáum bílinn þá tók það okkur smástund að fatta hvað hafði raunverulega átt sér stað en Samantha rak upp óp þegar hún sá að kortaveskið var horfið. Þá rann allt í einu upp fyrir mér hvað hafði gerst. Við vorum rænd,“ útskýrir Ívar Orri.

Þjófurinn lét greipar sópa og stal meðal annars Playstation-tölvu, vinnusíma, hleðslutækjum og ýmsum smáhlutum. „Það sárasta í þessu öllu saman er að hann tók smápeningasafn Samönthu sem var henni mjög kært. Hún hefur lengi safnað smápeningum frá þeim löndum sem hún heimsækir og átti orðið gott safn.

Þjófurinn gramsaði í öllum skápum, skúffum og töskum. Hann týndi saman allt sem honum þótti verðmætt. Hann reyndi að losa sjónvarpið en náði því ekki. Hann tók samt sjónvarpsfjarstýringuna, okkur þótti það fyndið. Þjófurinn gekk vel um og læsti hurðinni á eftir sér sem var líklega gert í þeim tilgangi að kaupa sér tíma til að geta komið sér undan óáreittur,“ segir Ívar Orri. 

Litla fjölskyldan!
Litla fjölskyldan! Ljósmynd/Aðsend

Símarnir batteríislausir

Ívar Orri og Samantha voru bæði með batteríislausa síma þegar þau sneru til baka úr göngunni og gátu þar af leiðandi ekki hringt í lögreglu.

„Fyrir algjöra heppni var annað par á gangi með hundinn sinn. Það endaði á að hringja á lögregluna en það hjálpaði þó lítið þar sem lögreglustöðin er lokuð um helgar. Okkur var bent á að koma á mánudag og gefa skýrslu. Þetta kom mér mjög á óvart, ég var ekki að búast við þessu svari,” segir Ívar Orri.

„Parið sem hjálpaði okkur var alveg miður sín yfir því sem hafði gerst og bað okkur afsökunar fyrir hönd Frakklands. Þau tilkynntu okkur að ástandið væri mjög slæmt á þessu svæði, sérstaklega fyrir ferðamenn. Þau sögðu einnig að húsbílar væru algeng skotmörk þjófa.”

Fóru í rannsóknarleiðangur

Um leið og símar Ívars Orra og Samönthu voru komnir í gang gátu þau séð hvar þjófurinn reyndi að greiða með kortunum. „Litla hjálp var að fá frá lögreglu og því ákváðum við að elta slóðina sjálf í þeirri von um að finna vísbendingar.

Við ræddum við starfsfólk í þeim verslunum sem þjófurinn heimsótti, allar voru þær staðsettar í tæplega tíu mínútna akstursfjarlægð frá svæðinu þar sem húsbílnum var lagt.

Starfsfólkið mundi eftir honum og gat gefið okkur ágætis lýsingu. Það lýsti honum sem karlmanni á aldursbilinu 25 til 30 ára og sagði að hann væri að öllum líkindum ekki Frakki. Þjófurinn talaði víst bjagaða frönsku með erlendum hreim.

Til mikillar lukku þá voru öryggismyndavélar í öllum verslununum og gátum við útbúið greinargóðan lista og komið eftirfarandi upplýsingum til lögreglu.

Okkur var samt bent á að lögreglan myndi líklegast ekkert gera í málinu enda eru rán af þessu tagi daglegt brauð á þessu svæði,“ útskýrir Ívar Orri og viðurkennir að þau hafi verið heppin að ekki hafi farið verr. 

„Hér er víst mjög algengt að fólk sé illa barið og jafnvel drepið en þjófar á þessu svæði eru víst þekktir fyrir að elta fólk langar vegalengdir og sitja fyrir þeim. Þeir gefast ekki auðveldlega upp.”

Drifu sig burt

Ívar Orri og Samantha ætluðu að eyða mun meiri tíma á svæðinu en ákváðu að sleppa því að skoða Suður-Frakkland frekar. „Við hættum við allt sem við vorum búin að ákveða að gera, allar skoðunarferðir afbókaðar. 

Núna erum við stödd á læstu tjaldsvæði rétt fyrir utan Mónakó. Við tökum einn dag í Mónakó og færum okkur svo yfir til Ítalíu og þaðan til Sviss. Við erum reynslunni ríkari og ætlum að hrista þetta af okkur. Það er margt skemmtilegt framundan.“

mbl.is