„Tökur fyrir skóframleiðandann Veja standa upp úr“

Förðunartrix | 13. nóvember 2022

„Tökur fyrir skóframleiðandann Veja standa upp úr“

Landsliðskonan og fyrirsætan Hildigunnur Þórarinsdóttir hefur náð frábærum árangri, bæði í frjálsum íþróttum sem og í fyrirsætustörfum. Hildigunnur er 23 ára Vesturbæjarmær sem stundar nám í byggingarfræði við Háskólann í Reykjavík, en hún hefur mikla ástríðu fyrir arkitektúr, hönnun og tísku. 

„Tökur fyrir skóframleiðandann Veja standa upp úr“

Förðunartrix | 13. nóvember 2022

Hildigunnur Þórarinsdóttir var stórglæsileg í tökum fyrir franska skóframleiðandann Veja …
Hildigunnur Þórarinsdóttir var stórglæsileg í tökum fyrir franska skóframleiðandann Veja árið 2021. Ljósmynd/Vincent Desailly

Landsliðskonan og fyrirsætan Hildigunnur Þórarinsdóttir hefur náð frábærum árangri, bæði í frjálsum íþróttum sem og í fyrirsætustörfum. Hildigunnur er 23 ára Vesturbæjarmær sem stundar nám í byggingarfræði við Háskólann í Reykjavík, en hún hefur mikla ástríðu fyrir arkitektúr, hönnun og tísku. 

Landsliðskonan og fyrirsætan Hildigunnur Þórarinsdóttir hefur náð frábærum árangri, bæði í frjálsum íþróttum sem og í fyrirsætustörfum. Hildigunnur er 23 ára Vesturbæjarmær sem stundar nám í byggingarfræði við Háskólann í Reykjavík, en hún hefur mikla ástríðu fyrir arkitektúr, hönnun og tísku. 

Við fengum að skyggnast inn í líf Hildigunnar sem sagði okkur meðal annars frá morgunrútínunni, frjálsíþróttaferlinum og uppáhaldsfyrirsætuverkefnum sínum. 

Hildigunnur æfir frjálsar íþróttir með Íþróttafélagi Reykjavíkur.
Hildigunnur æfir frjálsar íþróttir með Íþróttafélagi Reykjavíkur.

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Mér finnst gott að vakna snemma og hafa góðan tíma áður en ég þarf að fara út í daginn. Ég fæ mér góðan kaffibolla, yfirleitt hafragraut og tek jafnvel léttar teygjur til að koma blóðrásinni af stað.“

Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?

„Eftir að ég vakna fæ ég mér góðan morgunmat og geri mig til fyrir daginn. Síðan fer ég upp í skóla að læra eða í vinnuna. Dagurinn endar svo oftast á æfingu, einhverri hreyfingu eða sundferð.“

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Stíllinn minn er klassískur og frekar einfaldar svona dagsdaglega. Mér finnst hins vegar gaman að klæða mig upp og reyni þá að krydda fatastílinn með „funky“ flíkum.“

Í fataskáp Hildigunnar má finna mikið af klassískum flíkum, en …
Í fataskáp Hildigunnar má finna mikið af klassískum flíkum, en þar leynast einnig skemmtilegar „funky“ flíkur sem hún notar til að krydda lúkkin sín upp.

Hvert sækir þú tískuinnblástur?

„Ég sæki oftast innblástur á Instagram, Pinterest eða bara hjá vinkonum mínum. Þær eru flestar með mjög gott auga fyrir tísku.“

Áttu þér uppáhaldsflík?

„Ég fór til Mallorca í sumar og fann þar geggjuð kúrekastígvél sem ég held mikið upp á. Ég fékk líka að eiga gamlan leðurjakka sem langamma mín átti þegar hún var ung sem mér þykir mjög vænt um.“

Hildigunnur í fallegu dressi.
Hildigunnur í fallegu dressi.

Hvernig málar þú þig dagsdaglega?

„Ég nota ekki mikið af snyrtivörum og er að vinna með „less is more“. Ég nota oftast bara gott rakakrem sem gefur húðinni ljóma, hyljara undir augun, gel í augabrúnirnar og kinnalit. Ég mála mig svo meira þegar ég fer út á lífið, en ég hef lært mikið og fengið góð ráð frá förðunarfræðingum í tökum.“

Áttu þér uppáhaldssnyrtivöru?

„Ég er alltaf að prófa eitthvað nýtt en það sem ég er að elska núna er augabrúnagelið frá REFY Beauty sem gefur augabrúnunum svona „browlift“ lúkk. Svo er Les Beiges sólarpúðrið frá Chanel alltaf gott.“

„Annars var ég að prófa nýtt krem frá Avéne sem heitir Cicalfate. Þetta er mjög þykkt krem sem er að gera góða hluti fyrir húðina mína í þessum kulda. Mæli með!“

Hildigunnur notar ekki mikið af snyrtivörum, en hún vinnur út …
Hildigunnur notar ekki mikið af snyrtivörum, en hún vinnur út frá því að nota frekar minna en meira af farða og nær þannig fram fallegu og náttúrulegu lúkki.

Íþróttakennarinn kom auga á hlaupahraðann

Hildigunnur byrjaði að æfa frjálsar íþróttir þegar hún var 12 ára gömul eftir að íþróttakennari hennar í skólanum tók eftir því hve hratt hún gat hlaupið. „Hann benti mér á að fara í frjálsar íþróttir, en fram að því hafði ég verið í ballett frá 5 ára aldri,“ segir Hildigunnur. 

Hildigunnur æfir með Íþróttafélagi Reykjavíkur og eyðir hún miklum tíma á hlaupabrautinni, eða um 15 klukkustundum á viku. „Ég æfi ýmist í Laugardalshöllinni eða á nýja ÍR vellinum í Breiðholtinu. Á undirbúningstímabilinu er ég að æfa í kringum 15 klukkustundir á viku, en minna á keppisímabilum yfir sumar- og vetrartímann. Æfingarnar eru blanda af lyftingum og tækniæfingum þar sem ég einbeiti mér að langstökki og spretthlaupi,“ segir Hildigunnur. 

Tiana Ósk, Hildigunnur, Glódís Edda og Elín Sóley á Smáþjóðleikunum …
Tiana Ósk, Hildigunnur, Glódís Edda og Elín Sóley á Smáþjóðleikunum í sumar.

Hvað hefur staðið upp úr á frjálsíþróttaferlinum hingað til?

„Það er mjög mikill heiður og gaman að vera valin í landsliðið. Það var mikil upplifun að taka þátt í Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Tbilisi þegar ég var 15 ára sem og á Smáþjóðleikunum á Möltu síðastliðið sumar. Það er líka alltaf gaman að vinna titla og bæta sig.“

„Eftirminnilegast er þó þegar ég vann langstökkskeppnina á Reykjavík International Games árið 2021, en þá bætti ég mig talsvert og stökk í fyrsta skipti yfir sex metra. Það kom mér mikið á óvart það sem þetta var í miðjum heimsfaraldri og Laugardalshöllin mikið lokuð. Við höfðum þá verið að æfa úti mestallan veturinn sem getur verið krefjandi, sérstaklega fyrir andlegu hliðina.“

Hildigunnur einbeitir sér að langstökki og spretthlaupi í æfingum sínum. …
Hildigunnur einbeitir sér að langstökki og spretthlaupi í æfingum sínum. Hér er hún í myndatöku fyrir Barbells. Ljósmynd/Hlynur Hólm Hauksson

Hver er lykillinn að árangri þínum í íþróttinni?

„Það sem skiptir mig mestu máli er að hafa gaman! Svo skiptir auðvitað líka máli að vera dugleg að mæta á æfingar, næra mig vel og vera jákvæð þó það gangi ekki alltaf vel á æfingum og í keppni. Það er mikilvægt að setja ekki of mikla pressu á sjálfa sig og halda áfram þótt á móti blási.“

Hvað er mest krefjandi við íþróttina?

„Það sem mér þykir mest krefjandi er að halda haus og gefast ekki upp þegar eitthvað gengur ekki að óskum. Aftur á móti er það svo gaman og gefandi þegar allt fer loks að smella saman og maður fer að sjá árangur og bætingar.“

Þó það geti reynst krefjandi, jafnt andlega sem líkamlega, þegar …
Þó það geti reynst krefjandi, jafnt andlega sem líkamlega, þegar eitthvað gengur ekki upp segir Hildigunnur ekkert jafnast á við það að sjá árangur og bætingar í íþróttinni. Ljósmynd/Snorri Björnsson

Skemmtilegast að fara út fyrir þægindarammann

Hildigunnur byrjaði að sitja fyrir þegar hún var 17 ára gömul. „Vinkona mín sendi myndir af mér til umboðsskrifstofu Eskimo. Þau höfðu samband við mig stuttu seinna og vildu fá mig á skrá hjá þeim,“ útskýrir Hildigunnur. 

Hvað er mest krefjandi við fyrirsætustörfin?

„Ætli það sé ekki mest krefjandi þegar maður þarf að bíða lengi í útitökum í misjöfnu veðri. Á hinn bóginn er skemmtilegast að hitta og vinna með allskonar snillingum í faginu og ögra sjálfri sér með því að fara út fyrir þægindarammann. Svo er alltaf spennandi að sjá útkomuna.“

Áttu þér uppáhaldsverkefni sem þú hefur tekið þátt í?

„Það eru tvö verkefni sem standa upp úr, en þau eru bæði frá árinu 2021. Annars vegar var það verkefni fyrir franska skóframleiðandann Veja og hins vegar tökur fyrir sumarlínu 66° Norður.“

Hildigunnur í tökum fyrir 66° Norður, en verkefnið er í …
Hildigunnur í tökum fyrir 66° Norður, en verkefnið er í miklu uppáhaldi hjá henni. Ljósmynd/Ari Magg

Hvernig verkefni þykir þér skemmtilegust?

„Mér finnst mjög gaman í verkefnum sem tengjast hreyfingu og útivist, enda hef ég mesta reynslu af slíkum verkefnum. Mér finnst líka spennandi að prófa eitthvað nýtt, en verkefni sem ég vann nýlega með húðvörulínu Bláa Lónsins var fyrsta verkefnið af þeim toga.“

Hildigunnur í tökum fyrir Bláa Lónið.
Hildigunnur í tökum fyrir Bláa Lónið. Ljósmynd/Bláa Lónið/Cindy Rún
Hildigunni þykir spennandi að taka að sér ný og spennandi …
Hildigunni þykir spennandi að taka að sér ný og spennandi verkefni. Ljósmynd/Bláa Lónið/Cindy Rún

Hvað er framundan hjá þér?

„Það er mikið að gera í skólanum og prófin nálgast. Ég er að vinna í Farmers Market með skóla og verð þar yfir jólin.“

„Annars er ég að vinna mig út úr bakmeiðslum og hef ekkert geta æft af krafti síðan í sumar. Ég hlakka til að koma sterk til baka!“

Hildigunnur er spennt fyrir komandi tímum og vonast til að …
Hildigunnur er spennt fyrir komandi tímum og vonast til að komast á hlaupabrautina sem allra fyrst.
mbl.is